Gróskumikið starfsár Reita kallaðist á við tíðindaríkt ár í þjóðlífinu. Líkt og árið á undan voru íslenskir íþróttamenn og stjórnmálamenn í brennidepli, íþróttafólkið vegna frábærs árangurs í krafti einbeitni og samstöðu en stjórnmálamennirnir einkum vegna ágreinings. Skammlífasta stjórn í sögu lýðveldisins leit dagsins ljós og hvarf síðan af sjónarsviðinu. Erlendir ferðamenn héldu áfram að streyma til landsins með tilheyrandi áhrifum á efnahagslífið.
Leigutekjur ársins 2017 námu 10.781 millj. kr. samanborið við 10.035 millj. kr. á árinu áður. Aukning tekna er því 7,4% milli ára. Rekstrarkostnaður fjárfestingareigna nam 2.878 millj. kr. á árinu samanborið við 2.565 millj. kr. á árinu 2016 og jókst um 12,2% milli ára. Hækkun fasteignagjalda skýrir nær alla hækkun á milli ára. Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og fjármagnsliði nam 7.301 millj. kr. á árinu samanborið við 6.925 millj. kr. árið áður og eykst um 5,4% milli ára.
Virði fjárfestingareigna jókst um 9.283 millj. kr. á árinu en kaup á húsnæði Hótel Öldu við Laugaveg 66-70 á fyrsta ársfjórðungi og kaup á lóðum í Blikastaðalandi eru þar umfangsmest. Fjárfesting í endurbótum á fjárfestingareignum nam 1.761 millj. kr. á árinu en þar vega breytingar í Kringlunni þyngst. Matsbreyting fjárfestingareigna á árinu nam 3.852 millj. kr. og er að stærstum hluta tilkomin vegna lækkunar á ávöxtunarkröfu í mati eigna.
Í ársbyrjun hlutu Reitir útnefningu sem framúrskarandi fyrirtæki að mati Creditinfo sem framkvæmir fjárhagslegt styrk- og stöðugleikamat á fyrirtækjum landsins og birtir í kjölfarið lista yfir þau fyrirtæki sem uppfylla öll skilyrði. Að auki fengu Reitir endurnýjaða viðurkenningu á árinu sem fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum.
Í janúar var mynduð ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar undir forystu Bjarna Benediktssonar. Góð sátt virtist ríkja með foringjum þríeykisins en það var enginn sáttatónn í Donald Trump sem tók við embætti sem 45. forseti Bandaríkjanna um svipað leyti.
Reitir keyptu húseignina Laugaveg 66-70, þar sem Alda Hótel Reykjavík er til húsa, í janúar 2017. Alda Hótel er um 90 herbergja hótel og nam fjárfestingin 2.850 millj. kr. Lögmannsstofan Fulltingi flutti aðsetur sitt í endurnýjað og klæðskerasniðið 900 m2 húsnæði á efstu hæð Höfðabakka 9. Í Kringlunni voru opnaðar tvær nýjar verslanir, G-Star RAW og MAIA, auk þess sem Dressmann var opnuð á ný eftir gagngerar endurbætur á versluninni.
Kringlan hreppti á árinu 2017 íslensku auglýsingaverðlaunin, Lúðurinn, fyrir vel heppnað aprílgabb árið áður.
Aprílgabb Kringlunnar árið 2016 er hlaut íslensku auglýsingaverðlaunin, Lúðurinn, árið 2017.
Í mars auglýstu Reitir eftir áhugasömum leigutökum í tengslum við uppbyggingu á nýju 10.000 fermetra atvinnuhúsnæði við Skútuvog 8 sem kemur til með að geta hýst verslun, iðnað eða vörugeymslur. Lóðin er afar vel staðsett með tilliti til aðfanga og vörudreifingar.
Í maí tóku gildi samrunar félaga innan samstæðu Reita fasteignafélags. Breytt skipan dótturfélaga endurspeglar betur það úrval húsnæðis sem félagið býður viðskiptavinum sínum til leigu og breytingin leiðir af sér fækkun félaga með tilheyrandi hagræðingu í rekstri. Gagngerar breytingar urðu einnig í Frakklandi þar sem Emmanuel Macron varð óvænt yngsti forseti franska lýðveldisins.
Í júní keyptu Reitir 15 hektara atvinnusvæði í landi Blikastaða við Vesturlandsveg fyrir 850 milljónir króna. Áætlað byggingarmagn á svæðinu er 75 til 110 þúsund fermetrar en gert er ráð fyrir að svæðið verði fullbyggt á næstu 8-12 árum. Stjórnendur Reita sjá fram á skort á lóðum fyrir atvinnuhúsnæði og líta til svæðisins í landi Blikastaða sem hluta framtíðarlausnar í þeim efnum. Aukin spurn eftir íbúðarhúsnæði miðsvæðis virðist kalla á að léttur iðnaður og rýmisfrekur rekstur færist utar á höfuðborgarsvæðinu.
Myndskeiðið sýnir frumhugmyndir og grófa hugmynd að mögulegu umfangi bygginga. Blikastaðaland séð úr lofti.
Nýtt 20 herbergja hótel, Hótel Grímur, tók til starfa í Grímsbæ. Hótelið er á annarri hæð þessarar rótgrónu verslunarmiðstöðvar við Bústaðaveg þar sem m.a. er horft til hagkvæmni vegna nærliggjandi þjónustu. Reitir og Seltjarnarnesbær endurnýjuðu leigusamning um bókasafn Seltjarnarness á Eiðistorgi og Cafe París var opnað á ný eftir gagngerar endurbætur í hinu sögufræga húsi að Austurstræti 14.
Fjármálaráðherra hugði líka á gagngerar endurbætur á íslenska greiðslumiðlunarkerfinu. Hann lýsti yfir stríði á hendur tíu þúsund kallinum vegna meintra tengsla hans við ólöglega starfsemi. Kallinn sá reyndist eiga þúsundir velunnara og var atlögunni hrundið.
Gerður var langtímasamningur við bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar um flutning í Breiðumörk 20, hús sem Reitir keyptu árið 2016 og var í kjölfarið endurnýjað og aðlagað að starfseminni. Bæjarskrifstofan var áður í öðru húsnæði í eigu Reita, verslunarkjarnanum í Sunnumörk 2, sem nú er orðinn vinsæll viðkomustaður ferðamanna og hefur kaffihús Almars bakara þar verið stækkað til muna auk þess sem Apótekarinn hefur opnað þar nýtt útibú.
Húsnæði bæjarskrifstofu Hveragerðisbæjar við Breiðumörk.
Kunngerð voru úrslit í hugmyndasamkeppni um byggð við Laugaveg/Skipholt en það verkefni gengur einnig undir nafninu Heklureitur. Þar hafa Reitir áform um að þróa um 160 herbergja hótel í gamla Sjónvarpshúsinu við Laugaveg 176 en vinna við rammaskipulag stendur nú yfir sem tekur til stærra svæðis. Yrki arkitektar báru sigur úr býtum í samkeppninni og býður tillaga þeirra upp á mikinn sveigjanleika til frekari þróunar í sterku heildarsamhengi.
Í september var stórverslunin H&M opnuð á 2. hæð í Kringlunni. Margir höfðu beðið þessa viðburðar með óþreyju enda nýtur H&M fádæma lýðhylli hér á landi. Önnur þekkt verslun, Toys“R“Us, var opnuð í Kringlunni í sama mánuði. Undirritaður var langur leigusamningur við Múlabæ, dagþjálfun fyrir eldri borgara og öryrkja, um 780 fermetra húsnæði við Síðumúla 32 í Reykjavík.
Verslun Toys"R"Us var opnuð í Kringlunni á árinu.
Pólitískar sviptingar færðust í aukana og Björt framtíð sprengdi ríkisstjórnina með látum en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson þeysti í hlað á hvítum hesti og stofnaði Miðflokkinn. Þetta breytti því þó ekki að 17 sortir opnaði nýtt útibú í Kringlunni með áherslu á bragðgæði og gott útlit heimabaksturs.
Reitir fögnuðu 30 ára afmæli á árinu en félagið rekur upphaf sitt til opnunar Kringlunnar arið 1987. Saga Reita og þessa lifandi samfélags verslunar, þjónustu og upplifunar hefur verið samofin frá upphafi. Það var því vel við hæfi að blása til afmælisveislu í Borgarleikhúsinu enda húsið miðpunktur menningar í Kringlusamfélaginu. Þann 5. október fögnuðu um 500 viðskiptavinir, fjárfestar og samstarfsaðilar tímamótunum með veislu í fordyri leikhússins og leiksýningunni Elly.
Stjórn og starfsfólk Reita fagnaði afmælinu í Borgarleikhúsinu með viðskiptavinum, birgjum, fjárfestum og öðrum hagsmunaaðilum.
Reitir festu kaup á tæplega 1.700 fermetra atvinnuhúsnæði að Kletthálsi 3. Leigutaki er Arctic Trucks Ísland ehf. Á svipuðum tíma tryggðu trukkarnir í íslenska karlalandsliðinu í knattspyrnu sér sæti á lokamóti HM í Rússlandi 2018 með glæsibrag. Keppni á leikvangi stjórnmálanna var líka spennandi og tvísýn. Kosið var til Alþingis í október, átta flokkar komust á þing, konum fækkaði og miðaldra körlum fjölgaði. Í lok nóvember var svo mynduð ný þriggja flokka ríkisstjórn mikilla málamiðlana.
Í október opnaði Hagkaup verslun sína í Kringlunni á ný eftir gagngera endurnýjun. Next og Nespresso opnuðu þar einnig nýjar verslanir. Þá endurbættu Selected, Jack&Jones, Tiger og Kúnígúnd verslanir sínar í Kringlunni. Síðla árs luku Reitir við að innrétta Valitor-húsið, Dalshrauni 3.
Fyrsta hæðin að Dalshrauni 3 hefur verið leigð Valitor.
Í nóvember lá fyrir niðurstaða hugmyndasamkeppni um skipulag Kringlusvæðisins sem Reykjavíkurborg og Arkitektafélag Íslands efndu til í samvinnu við Reiti. Alls bárust fimm hugmyndir að skipulagi svæðisins en tillaga Kanon arkitekta varð hlutskörpust. Hugmyndir Reita ganga út á að byggja upp nútímalegan og öflugan borgarkjarna með verslun og þjónustu sem þjónar jafnt íbúum nærliggjandi hverfa, nýrrar íbúðabyggðar á Kringlureitnum en ekki síst öðrum gestum og íbúum höfuðborgarsvæðisins. Bættar vegatengingar, gönguleiðir og almenningssamgöngur munu skipa miklvægan sess í sköpun þessarar framtíðarsýnar. Heildarstærð Kringlusvæðisins er um 13 hektarar að flatarmáli og samanlagt flatarmál bygginga á svæðinu er um 92 þúsund fermetrar (brúttó).
Skipulagstillögur úr hugmyndasamkeppni um framtíðaruppbyggingu Kringlusvæðisins sýna fram á að svæðið geti vel borið 140-170 þúsund fermetra uppbyggingu til viðbótar og að mögulegt sé að fjölga íbúðum verulega miðað við núverandi heimildir í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Það heimilar 180 íbúðir en talið er að þeim geti jafnvel fjölgað í 5-600. Endanlegt umfang byggðarinnar mun ráðast í kjölfar vinnu við rammaskipulag þar sem einnig verður horft til samgönguþátta og umferðarskipulags.
Vinningstillaga Kanon arkitekta í hugmyndasamkeppni um framtíðarskipulag Kringlusvæðisins.
#metoo byltingin fór af stað af miklum krafti með öflugar baráttukonur í fylkingarbrjósti. Á svipuðum tíma fundust í Svíþjóð sannanir þess að háttsettur stríðsmaður frá víkingaöld hefði verið kona. Vel fór líka á því að íslenska valkyrjan Ólafía Þórunn Kristinsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins, fyrst kylfinga og sjötta konan er nýtur þessa heiðurs.
Árangur Reita til 30 ára byggist fyrst og fremst á farsælum viðskiptasamböndum en árangur til framtíðar byggir ekki síður á vandaðri úrlausn þeirra þróunarverkefna sem nú liggja fyrir. Með jákvæðni, samvinnu og fagmennsku að leiðarljósi stefna Reitir að því að verða áfram öflugasta fasteignafélag landsins.
Starfsfólki, stjórn, viðskiptavinum og fjárfestum er þakkað gott samstarf á árinu 2017.